Dansstúdíó Emelíu í 10 ár!

Fyrir 10 árum fékk ég þá hugmynd að halda dansnámskeið á Egilsstöðum, en þar fæddist ég og bjó til 9 ára aldurs. Og það gerði ég, nýskriðin yfir tvítugt, keyrði ein austur og kenndi börnum dans. Ég var þá nemandi á nútímalistdansbraut Klassíska Listdansskólans. Síðan þá hafa mörg hundruð nemendur komið á námskeið.

Á hverri einustu uppskerusýningu námskeiðanna stend ég með tárin í augunum af þakklæti, og í nokkur skipti hef ég jafnvel átt erfitt með að stoppa tárin. Ástæðan er sú að það er svo ótrúlega mögnuð tilfinning að sjá svona marga samankomna fyrir stuðlan verkefnis sem maður hefur byggt upp frá grunni með hjartanu og blóði, svita og tárum. Það er óhjákvæmilegt að verða snortinn og fyllast djúpu þakklæti. Að sjá ótal mörg börn kynnast listdansi fyrir tilstuðlan þessa verkefnis er ástæða þess að ég held áfram, ár eftir ár. Ég held ég hafi fengið 8 nemendur á fyrsta námskeiðið, í heildina. Í ár voru það tæplega 80, í fyrra um 116 en þá vorum við einnig á Reyðarfirði.
Margir nemendanna hafa komið mörg ár í röð og hef ég verið svo heppin að fylgjast með þeim vaxa úr grasi og ná mögnuðum framförum þrátt fyrir að koma bara í dans í tvær vikur á ári.  Það hefur ferið sérstaklega gefandi að sjá nemendur halda áfram dansnámi í Reykjavík í kjölfar námskeiða hjá mér.

Í gegnum árin hef ég hitt ótal marga fullorðna á Austurlandi sem hafa sagt mér frá því að þeir hafi dreymt um að læra listdans alla sína æsku en aldrei fengið það. Staðreyndin er sú að ef ég hefði ekki flutt til Reykjavíkur þá hefði ég sjálf aldrei lært að dansa. Það sem dansinn hefur hefur gefið mér í lífinu er ómetanlegt. Að fá tækifæri til að hreyfa líkamann á þennan hátt, með tónlist, og fá farveg fyrir sköpunargleðina á sama tíma eru eins og töfrar fyrir sjálfstraustið og sjálfsmyndina hjá svo ótal mörgum börnum og unglingum.  Og þó ég dansi lítið í dag, þá heldur dansinn áfram að gefa mér mikið.

Mig langar að þakka sérstaklega öllum þeim kennurunum og aðstoðarkennurum sem hafa komið og kennt með mér.
Þær eru: Auður, Brogan, Lilja Björk, Hedvig, Gerður, Bryndís Björt, Ester Sif, Lilja Iren, Valný Lára, Díma, Arna, Emilía og Alyona.  Hér má sjá meira um þessa mögnuðu kennara!

Einnig langar mig að þakka allan þann stuðning sem verkefnið hefur fengið í gegnum árin. Auður Vala, Dóri, Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs/ Sláturhúsið, Signý Ormars, Karen Erla, Óðinn Gunnar, Uppbyggingarsjóður Austurlands, Fjarðarbyggð, Fljótsdalshérað, Rótarýklúbburinn á Fljótsdalshéraði fyrir ómetanlega hvatningu 2015, Pétur fyrir grafísku hönnunina, Skúli, Natalía, fjölskyldan mín og allir nemendurnir og foreldrar og allir hinir. Takk!

-Emelía

IMG_1980.JPG